Ufsi
Pollachius virens
Ufsinn er stór þorskfiskur, yfirleitt á bilinu 70 til 110 cm langur í afla. Stærsti einstaklingur sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 132 cm.
Útbreiðsla
Ufsi finnst allt í kringum Ísland, en er sjaldgæfari í kaldsjónum norðan og austan við landið. Ufsinn er nokkurs konar blanda af uppsjávar- og botnfiski, hann finnst bæði nálægt botni og ofar í vatnssúlunni. Hann er straumlínulagaður og er því mjög góður sundfiskur. Hann syndir hratt um allt íslenska landgrunnið en einstaklingar sem merktir hafa verið á Íslandsmiðum hafa oft veiðst við Evrópu og öfugt. Ufsann má finna báðum megin í Norður-Atlantshafinu og er útbreiðsla hans mjög lík og hjá þorski og ýsu. Ufsinn finnst ekki í Kyrrahafinu. Alaskaufsinn, sem er ein mest veidda fisktegund í heimi, er alls ekki ufsi, í raun er hann þorskur.
Lífshættir
Ufsinn étur aðallega uppsjávarlífverur. Ljósátan er mikilvægasta fæðan fyrir ungfiskinn, Loðna og sandsíli fyrir stærri ufsann en aðrir fiskar eru einnig étnir í minna mæli. Hrygning fer fram með suður- og suðvesturströndinni frá janúar til mars, fyrr en hjá ættingjum hans þorski og ýsu. Um miðjan júní er ungviðið orðið mjög áberandi á grunnslóð allt í kringum landið. Ungviði ufsans sést oft við bryggjur allt í kringum landið. Ufsinn færir sig sífellt dýpra þegar hann eldast. Vöxtur er frekar hraður og ufsinn nær kynþroska við 5 til 6 ára aldur.
Nytjar
Ufsinn hefur lengi vel verið ein mikilvægasta nytjategundin á Íslandsmiðum. Afli hefur verið frá 30.000 til 130.000 tonn árlega síðan 1950. Næstum því allur núverandi afli er veiddur af íslenskum bátum, en þýskir togarar sóttu einnig sérstaklega mikið í ufsa þegar þeir stunduðu sínar veiðar hér við land.
Nú til dags er ufsi aðallega veiddur með botnvörpu og dreifist aflinn jafnt yfir árið. Einnig er nokkur afli fenginn í net. Bæði er sótt beint í ufsann en einnig er hann algengur meðafli við þorsk- og ýsuveiðar. Stór hluti aflans fæst á landgrunnskantinum, úti fyrir Suður- og Vesturlandinu. Þar er væntanlega aðalfæðuslóðir ufsans. Veiðar á smáufsa á stöng eru einnig vinsælar meðal smáfólks á bryggjum um allt land.
Ufsi er unninn svipað og þorskur. Stór hluti er flakaður og frystur um borð í frystitogurum eða ísaður á sjó og síðan flakaður og frystur í landvinnslum. Töluverður hluti er einnig saltaður og þurrkaður. Ufsi er seldur um allan heim, stærsti markaðurinn er Þýskaland þar sem löng hefð er fyrir neyslu ufsa. Stór markaður, svipaður þeim þýska, er einnig í Holllandi. Mest af frystu flökunum fer á þessa markaði sem og til Frakklands, Litháens, Bandaríkjanna, og margra annarra landa að auki. Salfiskurinn fer aðallega til Spánar og sá þurrkaði til Nígeríu.
HÞV