Skötuselur
Lophius piscatorius
Skötuselurinn er með stóran haus og mjög stóran kjaft með beittum tönnum. Margir vilja meina að hann sé á meðal ljótustu fiska hafsins. Þrátt fyrir útlitið er hann verðmætur því að hann þykir ljúffengur á bragðið.
Útbreiðsla
Áður fyrr fannst skötuselurinn einungis í hlýsjónum sunnan við Ísland. Vegna hlýnunar á Íslandsmiðum hefur útbreiðslan færst vestur og norður fyrir landið . Hann lifir meðfram allri strönd Evrópu, frá Múrmansk í norðri, niður að Miðjarðarhafinu og hefur jafnvel fundist niður með strönd Afríku. Fjölmargar náskyldar tegundir finnast út um allan heim.
Lífshættir
Líkt og beittar tennur og stór kjaftur benda til er skötuselurinn ránfiskur sem étur aðallega aðra fiska. Hann liggur á botninum í felum en þegar bráðin nálgast er hún skjótt gleypt heil. Skötuselurinn finnst frá grunnslóð og niður á 1.800 m dýpi. Hann er yfirleitt við botninn en hefur einnig fundist við yfirborðið þar sem hann hefur sést éta sjófugla. Hann hrygnir á djúpslóð sunnan við Ísland. Eggin og síðar lirfurnar rekur síðan á grunnslóð og setjast á botninn þegar þær eru 5 til 9 cm löng. Skötuselurinn vex hratt fyrsta ár lífs síns og nær kynþroska við 4 til 6 ára aldur og 40 til 80 cm lengd, hængarnir yngri og minni. Stærsti skötuselur sem veiðst hefur á Íslandsmiðum var 155 cm langur og 35 kg, óslægður.
Nytjar
Skötuselsaflinn var nokkuð stöðugur um 500 tonn á ári frá 1965 til 1997. Hann var aðallega meðafli við aðrar veiðar. Síðan hefur aflinn aukist hratt. Þetta er vegna þess að stofninn hefur stækkað hratt í kjölfar hlýnunar sjávar við Ísland. Nú eru líka stundaðar beinar veiðar á skötusel. Stærstur hluti beinu veiðanna fer fram á haustin og fram að vetri, þegar þorri stofnsins gengur á djúpslóð til hrygningar. Megnið af skötuselnum er flutt út ferskt í gámum eða með flugi til Bretlands. Þar er hann unnin áfram og stór hluti fluttur áfram til Spánar eða Frakklands.
HÞV