Stakkavík veiðar og vinnsla
Við fylgdum línubátnum Óla á Stað úr höfn í Grindavík eftir miðnætti og fengum að fylgjast með því þegar þeir komast á miðin og leggja út línu sem búið er að beita. Þorskurinn syndir fyrir neðan og þegar birtir bítur hann á agnið og er færður um borð.
Við fylgjumst með hvernig þorskurinn er unninn um borð, þveginn og ísaður og landað um kvöldið. Í fiskvinnslunni er þorskurinn slægður, hausaður, flakaður, roðflettur og beinhreinsaður og er loks pakkað og hann frystur, tilbúinn á markað.
Þorskurinn er eitt af þeim hráefnum sem náðst hefur hvað best nýting af. Fyrir utan fiskiholdið sjálft þá eru kinnar og gellur nýttar úr hausnum, þá er hausinn og beingarðar þurrkaðir og nýtt í mjöl. Úr innyflum eru lifrin nýtt í lýsi og úr hrognum er gerður kavíar. Þá er fiskroðið einnig hægt að nýta bæði í textílgerð og í ýmis líftækniverkefni eins og sáraumbúðir og collagen bætiefni.
Í myndbandinu fylgjumst við einnig með lífinu í hafinu við Ísland, hinum ýmsu smádýrum sem má finna í hafinu, hvernig kafarinn hefur samskipti við steinbítana og þorskana og við sjáum krabba næla sér í steinbítsegg sem og annað litríkt myndefni úr hafinu.