Bláskel

Mytilus edulis

Bláskel eða kræklingur, er mjög algeng hér við land og finnst í flestum fjörum þar sem undirlag er fast. Hún er algjör grunnsjávar- og fjörutegund og hangir á límþráðum á föstu undirlagi, t.d. fjörusteinum eða bryggjustólpum. Hún er því oft á þurru við lágflæði. Bláskelin síar fæðu (aðallega svifþörunga) úr sjónum. Hún getur vaxið hratt við hagstæð skilyrði og getur náð kynþroska við eins árs aldur. Bláskelin finnst víða beggja vegna Norður-Atlantshafsins en einnig á suðuhluta jarðar.

Nytjar

Bláskel er góð til matar og er nú til dags oft tínd í fjörum til slíks brúks. Eitur getur safnast saman í bláskelinni í kjölfar þörungablóma yfir hásumarið. Þessi eiturefni hreinsast þó aftur úr kræklingnum og hann sjálfur skaðast ekki. Ef til vill er það af þessum sökum sem bláskel hefur ekki verið nýtt að ráði hérlendis þar til nýlega nema til beitu.

Margar tegundir kræklinga finnast um allan heim og margar þeirra eru ræktaðar. Nýlega hafa tilraunir með bláskeljarækt hafist hér við land. Þar eru sérstök bönd látin hanga niður úr flotum sem fljóta í yfirborðinu, lirfur bláskeljarinnar safnast þar fyrir. Þegar nóg hefur safnast á þessu bönd er bláskelin tekinn af og settur í svokallaða sokka. Þeir eru svo settir niður þar sem aðstæður eru hentugar og vex bláskelin þar upp í markaðsstærð.

HÞV

 

Pin It on Pinterest

Share This