Einbúakrabbar
Paguroidea
Andstætt flestum öðrum krabbadýrum eru einbúakrabbar (líka kallaðir kuðungakrabbar) með linan og viðkvæman afturbol. Til þess að verjast óvinum troða þeir sér inn í tómar kuðungaskeljar sem þeir bera svo með sér.
Talið var að einbúakrabbar drepi ekki endilega snigilinn til að komast í kuðunginn, heldur taka kuðunginn til eigin nota þegar fyrri eigandi er dauður af öðrum orsökum. Sést hefur þó til kuðungakrabba þar sem þeir virðast vera að reyna að hjálpa hinum réttmæta eiganda að drepast.
Algengasta tegundin hér við land er loðni einbúakrabbi (Eupagurus pubescens) og finnst hann allt í kringum landið.
Sumar tegundir sæfífla, til dæmis hnúðfífillinn (Hormathia digitata) koma sér stundum fyrir á kuðungum snigla eða einbúakrabba og græða báðir aðilar á samlífinu. Sæfífillinn fær þarna ókeypis flutning á milli staða auk þess sem hann fær matarleifar frá hinum aðilanum en snigillinn eða krabbinn fær hinsvegar vernd, því í sæfíflunum er öflugt eitur.
HÞV