Háfur

Squalus acanthias

Háfurinn er lítil til miðlungsstór háfategund, sá stærsti sem mælst hefur á Íslandsmiðum var 114 cm.

Útbreiðsla

Hann finnst allt í kringum landið, en er sjaldgæfur í kaldsjónum úti fyrir Norðurlandi. Þrátt fyrir að ekki sé mikið af háf á Íslandsmiðum miðað við margar tegundir beinfiska, er hann samt algengasta hákarlategundin hér. Hann er yfirleitt botnlægur á leirbotni á landgrunninu og landgrunnshallanum, en sést oft ofar í vatnsmassanum. Hann er mikill flækingur, einstaklingar sem merktir hafa verið við Noreg og Norður-Ameríku hafa veiðst við Ísland.

Háfurinn er líklega ein algengasta háfategund í heimi, þar sem hann finnst heimshornanna á milli, í Kyrrahafinu, Atlantshafinu og Indlandshafi, á suðurhveli jarðar sem og á norðurhveli. Afar fáar dýrategundir hafa jafn mikla útbreiðslu og háfurinn. Hann étur ýmsa fiska rétt eins og botnlæga hryggleysingja.

Lífshættir

Háfurinn gýtur lifandi afkvæmum eins og algengt er meðal háffiska. Afkvæmin eru um 5 í hverju goti og eru þá þegar um 30 cm að lengd, það er álíka og 3 ára þorskur. Beinfiskar og brjóskfiskar fara því almennt mjög ólíkar leiðir til að fjölga sér, beinfiskar leggja áherslu á magnið en brjóskfiskar á gæðin. Háfurinn vex líka afar hægt en getur orðið mjög gamall, jafnvel er talið að hann geti orðið allt að 100 ára gamall.

Nytjar

Nokkur hundruð tonn af háfi voru veidd árlega af erlendum togurum þegar þeir voru á Íslandsmiðum. Afli Íslendinga hefur ávallt verið lítill, um eða yfir 100 tonn síðastliðin ár. Háfurinn var í raun talinn plága meðal íslenskra sjómanna, þar sem aðrar verðmætari fisktegundir hverfa af miðunum þegar háfurinn birtist. Í dag er háfurinn aðallega meðafli við aðrar veiðar, aðallega á netaveiðum úti fyrir suðurströndinni yfir sumarmánuðina.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This