Hrognkelsi

Cyclopterus lumpus

Hrognkelsið er þykkur, óásjálegur, næstum því kúlulaga fiskur. Hrygnurnar eru kallaðar grásleppur og eru mun stærri en hængarnir. Yfirleitt eru þær á bilinu 35 til 55 cm langar. Hængarnir eru kallaðir rauðmagar og eru yfirleitt frá 28 til 40 cm langir.

Heimkynni

Hrognkelsið finnst allt í kringum Ísland en er algengara norðan og austan við það. Það finnst beggja megin í norðanverðu Norður-Atlantshafinu en er ekki í Kyrrahafinu.

Lífshættir

Hrognkelsið er í raun uppsjávarfiskur og eyðir stærstum hluta ævi sinnar í úthafinu. Þar lifir það á ýmsum uppsjávarhryggleysingjum, meira að segja marglyttum. Seint um vetur ganga kynþroska hrognkelsi á grynningar til hrygningar. Rauðmagarnir koma á hrygningarslóðir fyrr en grásleppurnar. Þeir búa til hreiður í þarabeðum og bíða þar kerlinga sinna. Grásleppurnar koma svo, hrygna og fara aftur í burtu. Þær eru ekkert að skipta sér af uppeldinu. Rauðmagarnir gæta hreiðranna hins vegar af harðfylgi þar til eggin klekjast út. Þeir reyna meira að segja að hrekja kafara í burtu. Það getur oft verið mikill öldugangur á svo grunnu vatni og erfitt fyrir svo ólögulegan fisk að halda sér á réttum stað. Þá kemur sér vel að kviðuggar hrognkelsanna eru ummyndaðir í sogskálar. Sogskálarnir nota þau til að festa sig við steina eða þara.

Nýting

Hrognkelsi hafa verið veidd við Ísland í aldaraðir. Á hrygningartímanum eru þau á mjög grunnu vatni og þar af leiðandi auðveld að veiða. Í raun hrygna þau það grunnt að hrognkelsaveiðar eru á mörkum þess að vera flokkaðar sem landbúnaður frekar en sjávarútvegur.

Það er engin hámarksafli á veiðunum, en sérstakt veiðileyfi þarf og fjöldi daga, sem má veiða, er takmarkaður. Hrognkelsi eru eingöngu veidd með sérstökum netum á smábátum. Veiðarnar hafa sveiflast milli 2.000 og 13.000 tonna á ári. Sveiflurnar má að mestu leyti skýra með verðsveiflum á hrognamarkaði.

Margir Íslendingar telja soðinn rauðmaga með lifur og smá ediki lostæti og fer því nánast allur rauðmagi sem veiðist á innanlandsmarkað. Grásleppurnar hafa hins vegar verið taldar nánast óætar, eina ráðið sé að láta þær síga (hálfþurrkaðar) áður en þær eru étnar. Sumum finnst það góður matur en öðrum ekki. þrátt fyrir það beinast veiðarnar aðallega að hinni óætu grásleppu. Þær eru fullar af hrognum og þau eru afar verðmæt. Hrognin eru söltuð og svo seld erlendis sem kavíar.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This