Humar

Nephrops norvegicus

Einungis ein humartegund lifir við Ísland, leturhumar. Erlendar humartegundir geta margar hverjar orðið mjög stórar, jafnvel það stórar að einn humar dugir í matinn fyrir eina manneskju. Ameríkuhumarinn er stærstur en hann hefur fundist hér við land. Hann getur orðið allt að 64 cm að lengd og 20 kg að þyngd.

Leturhumarinn okkar er lítill miðað við aðrar humartegundir og raunar telja ekki allir hann sem humar vegna smæðar hans. Leturhumarinn á Íslandsmiðum er samt stór ef miðað er við leturhumar á öðrum hafsvæðum. Fullvaxta karldýr á Íslandsmiðum eru frá 20-25 cm frá augum að hala. Kvendýrin eru minni, sjaldan meira en 18 cm.

Útbreiðsla

Leturhumar er útbreiddur víða í Norðaustur-Atlantshafinu, frá miðhluta Noregs og suður í Miðjarðarhaf. Á Íslandsmiðum finnst hann bara í hlýja sjónum við suður-, suðaustur- og suðvesturströndina, aðallega á 110-270 m dýpi og við 6-9°C sjávarhita.

Lífshættir

Helstu búsvæði eru á mjúkum leir eða sandbotni þar sem hann grefur mikil göng og étur smádýr á botninum. Karldýrin eru stærri og hreyfanlegri og eyða meiri tíma utan gangnanna. Þetta endurspeglast í veiðunum þar sem meirihluti aflans eru karldýr.

Veiðar

Tilraunaveiðar á humri voru fyrst gerðar árið 1939 en var ekki haldið áfram. Einhverjar minniháttar veiðar hófust árið 1951, en stórtækar veiðar hófust fyrst árið 1958. Humarafli á Íslandsmiðum hefur verið á bilinu 1.200-4.000 tonn á ári síðastliðin 30 ár. Veiðitímabilið stendur yfirleitt frá miðjum maí til loka ágúst, en veiðar eru þó leyfðar fram til loka september. Leturhumar er veiddur í humartroll sem er minna og mun smáriðnara en fiskitroll.

Humar er ein verðmætasta auðlind Íslandsmiða sé miðað við kílóaverð. Hann er fluttur út annaðhvort sem hraðfrystir humarhalar eða sem heill humar. Meira en helmingur alls humars er fluttur út til Spánar en önnur mikilvæg lönd eru Holland og Bandaríkin. Vaxandi hluti fer á innanlandsmarkað þar sem vinsældir humars fara vaxandi á íslenskum veitingahúsum. Stór humar er verðmætastur í veiðum.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This