Jafnfætlur

Isopoda (Isopods)

Jafnfætlur eru skyldar marflóm og svipaðar þeim að stærð. Hópana má þó greina í sundur á því að marflær eru yfirleitt háar og mjóar (fyrir utan þanggeitina) en jafnfætlur yfirleitt lágar og breiðar. Nokkrar tegundir jafnfætlna eru algengar í fjörum og eru jafnfætlur því oft kallaðar einu nafni þanglýs. Þetta er þó nokkuð villandi þar sem fjölmargar tegundir lifa í djúpsjó þar sem ekkert þang er að finna. Tegundirnar þanglús (Idotea granulosa), sem sjá má hér á myndum, og fjörulús (Jaera albifrons) finnast í fjörum allt í kringum landið. Aðrar tegundir finnast yfirleitt dýpra.

Óskabirnir (Aega sp) eru jafnfætlur sem eru sníkjudýr á fiskum. Þeir eru rennilegir að lögun og bíta sig fasta á fiska og sjúga úr þeim líkamsvökva. Þjóðsögur hafa spunnist í kringum óskabirni, meðal annars á að vera hægt að óska sér hvers sem er ef lifandi óskabjörn er látinn öfugur undir tunguræturnar þar sem hann bítur sig fastan.

Sumir hópar jafnfætla hafa tekið upp allsérstæðar fæðuöflunarleiðir. Tréætan (Limnoria lignorum) nærist til dæmis á tré eins og nafnið bendir til. Ásamt trémaðkinum, sem er í raun samloka var tréætan skaðvaldur hér við land því hún át upp bryggjustólpa þannig að trébryggjurnar hrundu að lokum.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This