Kampalampi

Pandalus spp.

Fjölmargar rækjutegundir finnast við Ísland, en einungis ein er veidd, stóri kampalampinn (Pandalus borealis). Þó veiðist litli kampalampi (Pandalus montagui), sem hér sést, stundum lítillega sem meðafli. Litli kampalampi er algengari á grunnsævi á meðan sá stóri er gjarnan á meira dýpi.

Kampalampar eru sérstakir að því leyti að þeir eru tvíkynja, eru karldýr fyrstu æviárin en breytast svo í kvendýr þegar þeir þroskast. Misjafnt er eftir svæðum hvenær þetta gerist, en yfirleitt á 3. til 5. aldursári. Fæða þeirra eru ýmis smádýr á eða við botninn og éta þeir einnig hræ.

Kampalampaveiðar hófust í litlum mæli við Ísafjörð árið 1939, en að alvöru á sama stað árið 1955. Afli jókst verulega þegar úthafsrækjuveiðar hófust norðan landsins árið 1975 en hrundu svo aftur síðar. Ástæður þessa eru að mestu leyti þorskinum að kenna. Mikið hefur verið af þorski á rækjumiðunum og étur hann rækjuna upp og heldur henni svo niðri.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This