Loðna
Mallotus villosus
Loðnan er ein mikilvægasta fisktegundin á Íslandsmiðum. Hún er ekki bara mikilvægur nytjafiskur heldur gegnir hún lykilhlutverki í fæðukeðju hafsins sem milliliður milli dýrasvifs og stærri fiska. Flestar tegundir fiska, sérstaklega botnfiskar, éta loðnu á einhverju stigi í lífi sínu og er það t.d. áætlað að loðna sé um 40% af heildarfæðu þorsksins.
Útbreiðsla
Loðnan er smár uppsjávarfiskur, yfirleitt á bilinu 15 til 18 cm og hefur hún mjög stuttan lífsferil. Hún hrygnir yfirleitt í febrúar og mars meðfram suður- og suðvesturströndinni við sjávarhitastig á bilinu 4-7°C. Hrogn og lirfur rekur norður á landgrunnið norðan við Ísland og við Grænland. Hún færir sig smám saman norðar meðan hún vex og ver tíma sínum í Íslandshafi í fæðuleit.
Lífshættir
Hún lifir á dýrasvifi, aðallega á krabbaflóm. Loðnan á ekki marga óvini þarna því það er of kalt og djúpt fyrir hefðbundna ránfiska eins og þorskinn.
Loðnan verður yfirleitt kynþroska 3 til 4 ára. Þá safnast kynþroska loðnur saman í stórar torfur og ganga umhverfis Ísland, yfirleitt réttsælis, að hrygningarslóðunum á grunnslóð fyrir Suður- eða Vesturlandi. Meðan á þessum göngum stendur verður loðnan aðalfæða fjölmargra annarra sjávardýrategunda. Hrygningin á sér stað á grunnslóð og er mjög átakamikið ferli. Eftir hrygningu deyja allir hængarnir og flestar hrygnurnar.
Vitað er þó að þessi lífsferill getur breyst. Bjarni Sæmundsson var fyrsti fiskifræðingur Íslendinga. Á árunum eftir 1925 hlýnaði hafið í kringum Ísland og Bjarni tók þá eftir ýmsum breytingum á lífríki hafsins við ísland. Meðal annars fór loðnan að hrygna annars staðar og á öðrum tíma. Í staðinn fyrir að synda suður fyrir land síðla vetrar og hrygna þá synti hún upp á Norðurlandi að sumri til og hrygndi þar. Mögulega er þetta að gerast aftur þar sem sjórinn hefur verið hlýr og orðið hefur verið vart við loðnuseiði við Norðurland sem eiginlega hljóta að vera komin frá sumarhrygningu. Myndirnar sem hér sjálst af loðnuseiðum eru t.d. teknar í febrúar fyrir Norðurlandi og er mjög líklegt að þær séu frá sumarhrygningu.
Fyrir utan þörfina fyrir að hrygna í tiltölulega hlýjum sjó er loðnan kaldsjávarfiskur sem finnst allt í kringum norðurheimskautið. Hún finnst í Norður-Atlantshafinu frá Nýfundnalandi og Grænlandi í vestri til Barentshafs og meðfram norðurströnd Rússlands í austri. Hún finnst einnig í Norður-Kyrrahafinu frá Kóreu til Bresku-Kólumbíu.
Nytjar
Lítill áhugi var á loðnuveiðum fyrir 1965, sjómenn höfðu bara áhuga á síld. Eftir hrun síldarstofnanna sneri íslenski uppsjávarflotinn sér hins vegar í auknum mæli að loðnuveiðum. Þessar veiðar uxu hratt í um milljón tonn árlega, sum árin jafnmikið og samanlagður afli allra annarra tegunda á Íslandsmiðum. Miklar sveiflur einkenna þó loðnuveiðarnar svo að sum ár hafa veiðar nánast engar verið. Fram undir 1995 var loðnan langmikilvægasti uppsjávarfiskur Íslendinga. Eftir þann tíma fóru síldveiðar að aukast aftur auk þess sem uppsjávarskipin fóru einnig að veiða kolmunna og síðar makríl.
Íslenska loðnan gengur yfir á grænlenskt og norskt hafsvæði nálægt Jan Mayen, og er þar af leiðandi stjórnað með samkomulagi milli þessara þjóða. Áður voru tvö veiðitímabil. Aðalvetrartímabilið er frá janúar til apríl, þá veiðist loðna sem er að ganga til hrygningar. Hitt veiðitímabilið var að sumri þegar hluti uppsjávarflotans veiðir loðnu langt fyrir norðan land áður en hrygningargöngurnar hefjast. Sumarveiðarnar hafa nú að mestu lagst af.
Loðnuveiðum er stjórnað með aflareglu. Hafrannsóknastofnunin mælir magn loðnu í hafinu með bergmálsmælum í samvinnu við útgerðarfyrirtæki. Áætlað er hve mikið þurfi að vera eftir fyrir þorsk og aðra fiska að éta og að 150 þúsund tonn umfram það geti hrygnt. Veiðar eru svo leyfðar á öllu sem mælist umfram þetta. Ef ekki finnst meira en þetta þá eru veiðar bannaðar. Þetta er til þess að tryggja að hrygningarstofninum stafi ekki hætta af veiðunum og nóg verði eftir sem mikilvæg fæða fyrir aðrar sjávarlífverur.
Stærstur hluti loðnuaflans er bræddur í mjöl og lýsi. Mjölið er notað sem fóður fyrir búfé og í fiskeldi en lýsið í ýmis matvæli og iðnaðarvörur. Aukinn hluti er þó frystur um borð eða í landi þar sem aflinn er unninn í matvæli. Hrognin eru verðmætasti hluti loðnunnar en þau eru einungis hentug til vinnslu á stuttu tímabili, rétt áður en loðnan hrygnir. Stærsti markaðurinn fyrir mjölið og lýsið er í Noregi þar sem það er notað í laxafóður. Frysta loðnan og hrogn eru mest seld til Japans og Austur-Evrópu.
HÞV