Marhnútur

Myoxocephalus scorpius

Marhnúturinn er einn af þekktari fiskum Íslands, allavega meðal þeirra sem dorga af bryggjum. Það þykir hinsvegar frekar óvirðulegt að veiða hann og fáir sækjast eftir honum. Svo er hann líka alsettur göddum og getur stungið. Þetta er auðvitað hans aðferð til að segja „látið mig vera“. Marhnútar geta náð allt að 40 cm lengd hér við land en á kaldari hafsvæðum geta þeir orðið allt að helmingi stærri.

Útbreiðsla

Marhnúturinn finnst allt í kringum Ísland og er víða algengur. Hann er grunnsævisfiskur eins og bryggjudorgarar vita og finnst ekki oft neðan 25 metra dýpis. Marhnútur veiðist því lítið sem ekkert í önnur veiðarfæri sem veiða dýpra. Erlendis er útbreiðslusvæði marhnúts svipað og þorsks. Hann finnst í öllu Norður Atlantshafi, bæði Ameríku- og Evrópumegin.

Lífshættir

Marhnúturinn er þrekinn, kraftmikill og hausstór ránfiskur, þ.e. hann étur aðra fiska. Til þess er hann með stóran kjaft. Hann finnst yfirleitt í þaraskógum eða á grýttum botni. Hann er yfirleitt á litinn eins og botninn og liggur þar í leyni. Þegar annar fiskur nálgast þá sprettur hann fram og gleypir hann. Marhnúturinn er einn fárra fiska sem gæta eggja sinna. Hann hrygnir í kekki á botninn snemma árs þar sem hængurinn gætir þeirra þar til þau klekjast í maí.

Nytjar

Það eru engar nytjar af marhnút, hann er að vísu alveg ætur og í raun ágætur á bragðið, en það er víst mikið af hringormum í holdinu og flakið er lítið.

Pin It on Pinterest

Share This