Skarkoli

Pleuronectes platessa (European plaice)

Skarkoli er meðalstór flatfiskur. Hann hefur slétta áferð öfugt við t.d. sandkola og skrápflúru sem eru með hrjúft roð. Hann er einnig með rauða eða appelsínugula bletti á annars dökku bakinu. Vegna þessara bletta er hann líka oft nefndur rauðspretta. Undirhliðin er hvít. Stærsti skarkoli veiddur hér við land var 85 cm, en algeng stærð í afla er 30 til 50 cm. Hrygnan verður stærri en hængurinn eins og tíðkast reyndar hjá öllum flatfiskum. 

Útbreiðsla

Skarkolinn er algengur allt í kringum landið frá grunnsævi og út á um 200 m dýpi. Hann finnst aðallega á mjúkum sand eða leirbotni. Skarkolinn þolir einnig að vera tímabundið í ferskvatni en mjög fáir sjávarfiskar þola það. Skarkolinn finnst einungis Evrópumegin í Norður-Atlantshafinu allt frá Hvítahafi í norðri og niður í Miðjarðarhaf. Skarkolinn er sérstaklega algengur í Norðursjó. Við austurströnd Norður-Ameríku og í Norður-Kyrrahafinu finnast hins vegar náskyldar tegundir.

Lífshættir

Skarkolinn verður yfirleitt kynþroska við 5 ára aldur, hámarksaldur er meira en 20 ár. Skarkolinn étur aðallega ýmsa botnlæga hryggleysingja, burstaormar og samlokur eru þar í meirihluta. Hann étur einnig smáfiska eins og síli og loðnu þegar færi gefst.

Hrygning á sér aðallega stað í hlýsjónum sunnan og vestan við Ísland á 50 til 100 m dýpi. Egg og lirfur hafa einnig fundist í kalda sjónum norðan við landið svo einhver takmörkuð hrygning fer einnig fram þar. Ungviðið heldur sig á grynningum fyrsta árið áður en kolinn flytur sig á dýpri slóðir.

Áður fyrr voru flatfiskar taldir lifa kyrrsetulífi og nánast liggja flatir á botninum stóran hluta ævi sinnar. Merkingarannsóknir hafa á hinn bóginn sýnt að þetta er ekki alls kostar rétt. Skarkolinn fer í miklar fæðu- og hrygningargöngur allt umhverfis Ísland en dæmi eru um að fiskar sem merkir hafa verið öðrum megin við landið hafa endurheimst hinum megin.

Veiðar

Skarkolinn er góður matfiskur og hefur talsvert mikið verið veitt af honum hér við land. Aflinn hefur yfirleitt verið á bilinu 5.000 til 10.000 tonn á ári sem er svipað eða meira en samanlagður afli allra annarra flatfiska utan grálúðu.

Upphaflega var bróðurpartur aflans veiddur af breskum togurum, en þeir hættu því auðvitað eftir þorskastríðin. Nú til dags veiða Íslendingar mest í dragnót, enda hentar það veiðarfæri sérstaklega vel til flatfiskveiða. Þónokkuð veiðist einnig í botnvörpu. Afli í önnur veiðarfæri er hverfandi.

Helstu veiðisvæðin er úti fyrir suðvestur- og vesturströndinni.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This