Svampar
Porifera
Svampar eru dýr, en líkjast þó öðrum dýrum afar lítið. Einna helst líkjast þeir mosa eða fléttum á landi en eru algjörlega óskyldir þeim. Þeir eru með mjög einfalda líkamsbyggingu, eru nokkurs konar millistig þess að vera sambýli einfrumunga og fjölfrumulífverur. Þeir hafa ekki nein eiginleg líffæri eða vefi og hafa einungis fáar sérhæfðar frumugerðir. Að þessu leyti eru þeir frábrugðnir öllum öðrum fjölfrumudýrum.
Frumurnar í svömpum eru að mörgu leyti sjálfstæðar þó að nokkur verkaskipting sé á milli þeirra. Frumurnar sem mynda ysta lag svampdýrsins eru flatar og vernda frumurnar fyrir innan. Kragafrumur í innri lögum dýrsins eru búnar svipu sem þær dilla til að mynda straum vatns gegnum dýrið. Með vatninu berast súrefni og fæða inn í dýrið. Kragafrumur fanga svo fæðuagnir úr vatninu og melta þær. Miðlag svampdýrsins er úr frumum sem kallast ömbufrumur. Þær framleiða hráefni í styrktargrind dýrsins og annast flutning meltra næringarefna. Þessar frumur mynda líka eggfrumur og sáðfrumur þegar kemur að kynæxlun. Ólíkt öðrum dýrum getur ein fruma, af hvaða gerð sem er, myndað nýjan svamp. Svampar eru alsettir litlum opum sem sjór streymir inn um með hjálp svipufrumanna. Sjórinn streymir svo út um færri (jafnvel aðeins eitt) og stærri útstreymisop.
Svampar mynda oft „svampkenndar“ kúlur, blöð, skán eða önnur form á hafsbotninum og geta þeir verið mjög áberandi á hörðum botni. Svampurinn sjálfur er algjörlega botnfastur og getur ekkert hreyft sig. Vegna þessa er svömpum oft ruglað saman við plöntur. Svampar finnast nánast eingöngu í sjó, en auk þess örfáar tegundir í ferskvatni.
Um 160 svampategundir hafa fundist við Ísland en eitthvað um 10.000 í heiminum öllum. Það er þó mjög erfitt að greina svampa til tegunda því að bæði geta einstaklingar innan hverrar tegundar verið mjög ólíkir og margar tegundir eru líkar. Þarf þá oft sérfræðing til að greina innri byggingu í smásjá, t.d. gerð stoðgrindar og nála.
Baðsvampar voru áður fyrr búnir til úr hlýsjávarsvömpum. Plastsvampar hafa nú leyst þá að mestu af hólmi en þó er enn hægt að kaupa lífræna svampa í sumum búðum. Varast skal að nota íslenska svampa í sturtunni því að flestir þeirra eru með aragrúa af örlitlum nálum. Þessar nálar stingast í húðina og geta valdið verulegum óþægindum. Sjómenn þekkja þetta þegar þeir fá svokallaðan ost í trollið, en það er einmitt svampur. Þá þarf að passa sig að vera í þykkum hönskum þegar honum er hent aftur í sjóinn.
Áhugi á svömpum hefur verið að aukast á síðustu árum af tveimur ástæðum. Önnur er sú að svampabreiður á landgrunninu (oft myndaðar af fyrrgreindum osti) auka verulega við fjölbreytni botnsins og skapa því umhverfi fyrir aðrar lífverur. Þær veita t.d. smáfiskum og seiðum mikilvægt skjól. Þessum svampabreiðum hefur líklega verið eytt á mörgum svæðum af togveiðarfærum og eru því mörg þessara svæða nú vernduð .
Hin ástæðan er sú að svampar framleiða ýmis efni til að verja sig, sem vakið hafa áhuga líftæknifyrirtækja. Lífverur sem ekki geta hreyft sig úr stað, þurfa að koma sér upp einhverjum vörnum gegn afráni. Nálarnar gera sitt gagn en duga ekki einar sér. Þess vegna framleiða svampar ýmis eiturefni sér til varnar. Sjómenn sem fengið hafa mikið af osti (það er svampinum) í trollið kannast við sterka lyktina sem kemur af honum. Það eru þessi efni sem hugsanlega gætu nýst til lækninga eða efnaiðnaðar í framtíðinni.
HÞV