Þorskur

Gadus morhua

Þorskurinn er líklega mikilvægasti fiskur Íslands, kannski mikilvægasta dýr Íslands?

Útbreiðsla

Þorskurinn er einn algengasti fiskurinn í öllu norðanverðu Norður-Atlantshafinu. Við Ameríku finnst hann frá Þorskhöfða í suðri og norður í Baffinflóa. Hann er við sunnanvert Grænland, allt í kringum Ísland og Færeyjar. Við Evrópu finnst hann frá norðanverðum Biskayaflóa og norður til Svalbarða. Á stórum hluta þessa svæðis er hann mikilvægasta nytjategundin.

Lífshættir

Þorskurinn getur orðið nokkuð stór. Stærsti fiskurinn sem mældur hefur verið á Íslandsmiðum var 186 cm langur og 17 ára gamall. Vöxturinn getur verið mjög breytilegur bæði milli ára og svæða. Almennt vex þorskurinn hægar í kaldari sjónum norðan og austan við land en í hlýja sjónum í suðri.

Þorskurinn hrygnir allt í kringum landið, en stærstu og mikilvægustu hrygningarstöðvarnar eru úti fyrir suðvesturströndinni. Hrygning á sér stað síðla vetrar. Fyrr á tíðum var aðalfiskveiðivertíðin á Íslandi frá febrúar og fram í apríl og mest var veitt úti fyrir Suðvestur- og Vesturlandi einmitt þegar hann var að ganga til hrygningar. Eftir hrygningu dreifir þorskurinn sér aftur um landgrunnið.

Lirfur og seiði reka réttsælis í kringum landið með hafstraumum. Um haustið leita þau svo til botns og hugsa þau þá fyrst og fremst um að verða ekki étin. Hættulegustu óvinir litlu þorskanna á þessu aldursskeiði eru stærri bræður þeirra.

Aðalslóðir ungviðisins eru á kaldari hafsvæðum Íslandsmiða fyrir norðvestan, norðan og austan landið. Almennt færa seiðin sig dýpra eftir því sem þau vaxa og fara svo að finnast á fæðuslóðum fullorðinna fiska við kynþroskaaldur.

Fæða þorsksins er mjög fjölbreytt, og gæti það verið ein af ástæðunum fyrir velgengni hans. Helsta fæða ungviðisins eru ýmsar svifdýrategundir. Rauðátan er líklega mikilvægust, en í maga smáþorska er líka að finna mikið af ljósátu og loðnuseiðum. Þegar þorskurinn stækkar og leitar til botns fer hann að éta mikið af ýmsum litlum botnlægum hryggleysingjum. Þegar hann hefur náð 20-30 cm lengd verður helsta fæða hans rækja, þó svo það megi finna ýmsa aðra bráð í fæðu hans. Þegar hann stækkar enn þá eykst hlutdeild smáfiska í fæðu hans, aðallega loðnu. Fiskarnir sem þorskurinn étur stækka svo í jöfnu hlutfalli við vöxt hans.

Nytjar

Þorskur er veiddur allt í kringum Ísland og allt árið um kring, en veiðar eru ennþá mestar yfir vetrartímann þegar hann gengur á hrygningarslóðir á grunnslóð. Á öðrum árstímum fæst mestur afli á helstu fæðuslóðunum norðvestan og suðvestan við Ísland. Hann er helst veiddur á 100-250 m dýpi við sjávarhita frá 4 til 7 °C.

Þorskafli Íslendinga hefur sveiflast frá 160.000 til 470.000 tonnum á ári og hefur að meðaltali verið nálægt 250.000 tonnum. Þorskur er efnahagslega langtum mikilvægasta fisktegundin við Ísland. Á undanförnum árum hafa þorskafurðir staðið undir 35-40% af heildarútflutningstekjum sjávarafurða. Hann er langmikilvægasta tegundin á handfæra-, línu- og netaveiðum, og einnig mikilvæg tegundin í dragnóta- og botnvörpuveiðum.

HÞV

Pin It on Pinterest

Share This